Breytingar á tollalögum 1. janúar 2017

29.12.2016

Þann 1. janúar 2017 ganga í gildi umtalsverðar breytingar á ákvæðum tollalaga.

Tollar eru felldir niður á vörum í 25. til 97. kafla tollskrár, en undir þessa kafla falla allar aðrar vörur en þær sem teljast vera úr dýra- eða jurtaríkinu auk matvæla. Þess ber þó að geta að vörur í 25. til 97. kafla tollskrár bera enn önnur aðflutningsgjöld, s.s. virðisaukaskatt og úrvinnslugjöld svo dæmi séu tekin.

Áhrifa breytingarinnar mun gæta við innflutning vöru í áðurnefndum köflum tollskrár frá löndum sem ekki hafa fríverslunarsamninga við Ísland. Þar mætti t.d. nefna Bandaríkin og Japan. Tollar í umræddum köflum tollskrár hafa þegar verið felldir niður við innflutning upprunavöru frá löndum sem Ísland hefur gert fríverslunarsamninga við og mun því ekki hafa áhrif á greiðslu tolla við innflutning vöru í 25. til 97. kafla, t.d. frá ESB eða Kína.

Breytingarnar taka, eins og áður segir, gildi um áramótin. Meginreglan er sú að álagning gjalda miðast við tollafgreiðsludag, þannig njóta vörur, sem bíða nú tollafgreiðslu og eru staðsettar á geymslusvæðum fyrir ótollafgreiddar vörur, niðurfellingu tolla ef þær eru tollafgreiddar eftir áramót. Öðruvísi er farið með vörusendingar sem koma til landsins með hraðsendingarfyrirtækjum en er miðað við komudag fars til landsins við álagningu gjalda að því er varðar slíkar sendingar. Vörur sem hafa verið tollafgreiddar með bráðabirgðatollafgreiðslu njóta ekki niðurfellingu tolla þó uppgjör tollafgreiðslu fari fram eftir áramót.

(Af vefsíðu Tollstjóra, www.tollur.is)

Til baka í yfirlit