Leiðangursskip sigla hringinn í sumar

06.07.2016
Leiðangursskip sigla hringinn í sumar - Mynd

Mun fleiri leiðangursskip munu sigla hringinn í kringum Ísland með ferðamenn í sumar. Leiðangursskip kallast þau skip sem flytja farþega, sem komið hafa til landsins með flugi, í skoðunarferðir í kringum landið og eru einskonar minni skemmtiferðaskip.

Ocean Diamond kom til Íslands í maímánuði og hefur nú þegar hafið siglingar í kringum landið en skipin Star Legend, L'Austral og NG Explorer munu sigla hringinn í júlí og ágúst. Það má segja að þetta sé það nýjasta í flóru þeirra skipa sem sigla hér við land en þessi leiðangursskip gera mikið út á náttúruskoðun. Hvert skip mun sigla með á annað hundrað farþega í hverri ferð.

Þetta er mjög jákvætt fyrir byggðarlög á landsbyggðinni en skipin stoppa daglega í nýrri höfn. Þau hafa viðkomu í Reykjavík, Grundarfirði, Stykkishólmi, Flatey, Ísafirði, Vigri, Grímsey, Siglufirði, Akureyri, Seyðisfirði, Eskifirði, Neskaupstað, Djúpavogi og Vestmannaeyjum.

Það er Gára, dótturfélag TVG-Zimsen, sem sér um að þjónusta þessi skip.

Til baka í yfirlit