TVG-Zimsen flytur búnað á HM í Rússlandi

13.06.2018
TVG-Zimsen flytur búnað á HM í Rússlandi - Mynd

Eins og flestir vita verður flautað til leiks á HM karla í knattspyrnu í Rússlandi þann 14. júní nk. og verðum við Íslendingar nú með í fyrsta skipti.
Það eru ekki aðeins leikmenn og þjálfarar sem þurfa að ferðast til Rússlands fyrir mótið heldur fylgir landsliðinu gríðarlegt magn af farangri og búnaði svo liðið geti undirbúið sig sem best fyrir þennan stærsta viðburð alþjóðaknattspyrnu.
 
Í samstarfi við KSÍ flutti TVG-Zimsen talsvert af búnaði til Rússlands fyrir landsliðið okkar, bæði frá Íslandi og frá Þýskalandi. Við slíkan innflutning til Rússlands þarf að fylgja skýru regluverki og þurftu sérfræðingar okkar að leggja á sig mikla vinnu í samskiptum við starfsbræður sína í Rússlandi þar sem aragrúi eyðublaða og leyfa þurfti undirritun.
 
Búnaðurinn komst á leiðarenda nokkru áður en landsliðið fór utan svo allt yrði klárt í tíma. Landsliðið okkar getur því haldið sínu striki við undirbúning mótsins strax við komuna til Rússlands.
 
TVG-Zimsen óskar karlalandsliði Íslands alls hins besta á HM í Rússlandi.
 
Áfram Ísland!

Til baka í yfirlit