TVG Zimsen
Fyrirtækið TVG-Zimsen varð til þegar Tollvörugeymslan hf. og Skipaafgreiðsla Jes Zimsen sameinuðust árið 1996. Árni Pétur Jónsson, er áður hafði verið framkvæmdastjóri Skipaafgreiðslu Jes Zimsen hf, tók við stjórnartaumunum við sameininguna og Helgi Hjálmsson lét af störfum sem framkvæmdastjóri Tollvörugeymslunnar. Með sameiningunni gat fyrirtækið boðið upp á heildar flutningalausnir fyrir viðskiptavini sína. Árið 1997 var tekið upp nýtt stjórnskipulag og starfsemi fyrirtækisins skipt í fjórar deildir eða svið, flutningssvið, geymslusvið, fjármálasvið og útibú á Akureyri.Árin 1996-2004 rak TVG-Zimsen umfangsmikla þjónustumiðstöð við Héðinsgötu í Reykjavík og þar voru skrifstofur fyrirtækisins, flutningamiðlunarþjónusta og vöruhótel. Jes Zimsen hafði flutt á Héðinsgötuna árið 1994 og hið nýja sameinaða félag TVG-Zimsen var þar til húsa í átta ár. Það var oft mikið líf og fjör á Héðinsgötunni á þessum tíma en þar voru einnig flugfrakt Flugleiða og Cargolux auk útibús Tollstjórans í Reykjavík og Landsbanka Íslands. Með sérhæfðri tollvörugeymslu og frísvæðisþjónustu á Héðinsgötunni gátu viðskiptavinir TVG-Zimsen leyst út sendingar og þurftu aðeins að greiða aðflutningsgjöld í samræmi við úttektir hverju sinni. Einnig gátu erlendir framleiðendur haft eigin lager hjá TVG-Zimsen og þjónað þannig viðskiptavinum sínum hér á landi.TVG-Zimsen kom að rekstri og uppbyggingu Vöruhótelsins en vöruhótelið var eitt af stærstu húsum landsins, alls 295 þúsund rúmmetrar, og gat stærðar sinnar vegna rúmað 5-6 Laugardalshallir. Tilkoma hússins varð til þess að fyrirtæki sem notfærðu sér þjónustu þess gátu nú stýrt birgðahaldi án tillits til eigin húsnæðis. Þau leigðu einfaldlega það pláss sem þau þurftu hverju sinni.Árið 2004 flutti TVG-Zimsen af Héðinsgötu yfir í nýtt húsnæði Vöruhótelsins. Á sama tíma var starfsemi geymslusviðs fyrirtækisins flutt til Vöruhótelsins.Hjörtur Hjartarson tók við stöðu framkvæmdastjóra TVG-Zimsen árið 1999 og um sumarið var stofnuð sérstök sjóflutningsdeild hjá TVG-Zimsen.Aldamótaárið 2000 var nokkuð viðburðarríkt hjá fyrirtækinu. Gengið var frá samstarfssamningi við hollenska flutningamiðlunarfyrirtækið Koninklijke Frans Maas Groep N.V. Samstarfið styrkti net flutningamiðlunar TVG-Zimsen, einkum í sjóflutningum, en áherslur félagsins höfðu til þessa frekar legið í hraðflutningum, flugfrakt og sérhæfðri geymslu- og dreifingarþjónustu. Ári síðar var gengið frá enn fleiri samningum við alþjóðleg flutningsmiðlunarfyrirtæki. Starfsemi TVG-Zimsen breyttist talsvert á þessum tíma og umfangið jókst umtalsvert með samningunum sem gerðu það að verkum að TVG-Zimsen gat tekið að sér stærri viðskiptavini.TVG-Zimsen flutti árið 2004 alla starfsemi sína frá Héðinsgötunni í nýtt húsnæði Vöruhótelsins við Sundahöfn. Skrifstofuaðstaða TVG-Zimsen var árið 2005 flutt í nýjar höfuðstöðvar að Korngörðum 2. Fyrirtækið einbeitti sér áfram að starfsemi flutningsmiðlunar, þ.e. sjófrakt, flugfrakt og skjalagerð.