TVG-Zimsen

20 ÁRA AFMÆLI 2016

FYRIRTÆKI MEÐ RÆTUR TIL ÁRSINS 1894

Söguvefur TVG-Zimsen

TVG-Zimsen átti 20 ára afmæli 2016. Fyrirtækið varð til við sameiningu Tollvörugeymslunnar hf. og Skipaafgreiðslu Jes Zimsen árið 1996 en sögu þessara fyrirtækja má rekja mun lengra aftur. Í tilefni afmælisins eru þessari sögu gerð skil á sérstökum söguvef.

Hvort sem rýnt er í yfir 100 ára sögu TVG-Zimsen eða horft á síðustu 20 ár má sjá að markmið starfseminnar hefur frá upphafi verið að veita öflugri og frjálsri verslun stuðning og draga úr einangrun landsins með ýmsum úrlausnum sem snúa meðal annars að inn- og útflutningi, vörugeymslu og tollafgreiðslu. 

Verkefnin hafa þróast í takt við tímann og ný tækifæri, en í dag er TVG-Zimsen öflug og reynslumikil alhliða flutningsmiðlun. Boðið er upp á alla þjónustu tengda inn- og útflutningi ásamt alhliða flutningsþjónustu um allan heim í góðum tengslum við víðtæk þjónustu- og framleiðslukerfi samstarfsaðila. Auk grunnflutningalausna og hefðbundinnar flutningsmiðlunar er einnig boðið upp á klæðskerasniðnar lausnir. Frekari upplýsingar um núverandi þjónustuframboð TVG-Zimsen er að finna á heimasíðu fyrirtækisins, www.tvg.is.

Bættur hagur með öflugri
verslunarstétt í upphafi 20.aldar

Á síðari hluta 19. aldar var byrjað að ryðja braut nútímalegra verslunarhátta í Reykjavík. Siglingar jukust til landsins eftir 1870 en farmgjöld höfðu stórlækkað um allan heim vegna vélvæðingar og framfara í skipasmíðum. Áreiðanlegar siglingar til og frá landinu voru hin mesta nauðsyn fyrir framgang verslunarinnar. Stofnun Eimskipafélags Íslands 1914 var því mikilvægt framfaraskref.

Farþega- og vöruflutningaskip Sameinaða félagsins við hafnarbakka í Reykjavík árið 1917. (Ljósmyndasafn Rvk)

Jes Zimsen

Jes Zimsen (1877-1938) átti þátt í því að leggja grunn að breyttum og bættum atvinnuháttum og lífsskilyrðum í Reykjavík. Segja má að verslun hafi verið honum í blóð borin en faðir hans, Christian Zimsen, var kaupmaður allt sitt líf og stýrði bæði verslun í Hafnarfirði og síðar í Reykjavík.

Verslun Jes Zimsen

Jes Zimsen var fimmtán ára gamall þegar hann hóf nám í verslunarfræðum í Danmörku. Nítján ára gamall snéri hann heim og tók að miklu leyti við stjórn verslunar föður síns í Reykjavík. Hann skipti versluninni í tvær deildir. Annars vegar járnvöruverslun, sem seldi byggingavörur aðrar en timbur, og hins vegar nýlenduvöruverslun sem hann seldi 1931. Jes var einn af stofnendum Verzlunarráðs Íslands og sat í stjórn þess þangað til hann baðst undan endurkosningu ári áður en hann lést. Hann var einnig mikill styrktarmaður Verzlunarskóla Íslands.

Kreppa og langur haftakafli

Í byrjun fjórða áratugar 20. aldar fór almenningur á Íslandi að finna verulega fyrir heimskreppunni. Útflutningsvörur lækkuðu mikið í verði, viðskipti við útlönd færðust í hendur yfirvalda og verndartollum og innflutningshöftum var komið á. Ríkisvaldið stýrði allri utanlandsverslun og gjaldeyrir til innflutnings á hinum og þessum vörum var lengi skammtaður. Smám saman var þó dregið úr höftum en haftatímabilinu lauk ekki fyrr en um 1960 og jókst innflutningsfrelsi í kjölfarið.

Hópur fólks stendur í röð við skóverslun á Laugavegi árið 1948. (Ljósmyndasafn Rvk)

Skipaafgreiðsla Jes Zimsen

Skipaafgreiðsla, sem var deild innan verslunar Jes Zimsen, varð sjálfstætt fyrirtæki undir heitinu Skipaafgreiðsla Jes Zimsen árið 1932. Skipaafgreiðslan var umboðsaðili Sameinaða danska gufuskipafélagsins eða Sameinaða félagsins. Það var um tíma eitt stærsta skipafélag í heimi.

Breytingar hjá Skipaafgreiðslu Jes Zimsen

Árið 1967 tók skrifstofa Eimskips við afgreiðslu fyrir Sameinaða skipafélagið. Þá hafði Gunnar B. Sigurðsson veitt Skipaafgreiðslu Jes Zimsen forstöðu frá 1958. Gunnar starfaði í eitt ár eftir breytinguna sem fulltrúi Sameinaða skipafélagsins með aðsetur á skrifstofu Eimskips. Þá hætti hann að eigin ósk og stofnaði sitt eigið fyrirtæki undir gamla firmanafninu Skipaafgreiðsla Jes Zimsen. Starfseminni var talsvert breytt en í kringum 1970 bauð fyrirtækið upp á margvíslega nýja þjónustu við inn- og útflytjendur. Skipaafgreiðsla Jes Zimsen var fyrsta íslenska fyrirtækið sem bauð upp á alhliða vörusendingarþjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Boðið var upp á aðstoð við að flytja hvers konar varning hvort heldur var í frakt eða pósti, á sjó, landi eða í lofti. Þá annaðist fyrirtækið frágang aðflutningsskjala til tollmeðferðar og framvísun vara til skoðunar ásamt innlausn pappíra og heimsendingu. Fyrirtækið gat einnig tekið vörur, búslóðir, farangur, pakka og fleira í geymslu fyrir viðskiptavini sína í lengri eða skemmri tíma. Árið 1984 kaupir Eimskip fyrirtækið Jes Zimsen. 

Stofnun Tollvörugeymslunnar

Fyrir forgöngu Verslunarráðs Íslands var Tollvörugeymslan stofnuð 1962 en hún tók til starfa 1964. Markmið fyrirtækisins var geymsla ótollafgreiddra vara og voru reistar miklar vöruskemmur á Héðinsgötu 1-3 í Laugarnesi með það fyrir augum. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu Albert Guðmundsson sem var formaður, Hjalti Pálsson varaformaður og Sigfús Bjarnason gjaldkeri. Tollvörugeymslan var ný tegund verslunarmáta sem létti mjög á fjárþörf innflutningsaðila. Fyrirkomulagið jók vöruöryggi í landinu en umrót í heimsmálum gat teppt alla flutninga til landsins. Með Tollvörugeymslunni jókst frjálsræði í innflutningi en innflytjendur höfðu aðgang að vörulager hérlendis sem var yfirleitt í eigu erlends seljanda. Vörur voru svo tollafgreiddar eftir þörfum notenda. Af þessu var augljóst hagræði bæði fyrir innflytjendur og neytendur. Innflytjendur komust hjá því að liggja með mikið fjármagn bundið í vörubirgðum og þjónusta við neytendur var bætt þar sem auknar líkur voru á að vara væri til í landinu þegar á þurfti að halda. Í stað þess að bíða í ef til vill margar vikur eftir að fá vöru senda til landsins tók aðeins örfáa daga að ganga frá pappírum til að fá vöru afgreidda.   

Mikilvæg nýjung

Tollvörugeymslan var mikilvæg nýjung þegar hún tók til starfa 1964. Að baki var langt haftatímabil og hugmyndin um að geyma ótollafgreiddar vörur var á skjön við viðteknar venjur. Dæmi voru um að þeir sem nýttu sér þjónustuna næðu yfirburðastöðu á markaði þar sem þeir styttu biðtíma viðskiptavina eftir vöru til muna. Rolf Johansen, umboðsmaður Bridgestone-hjólbarða, var meðal þeirra sem leigði pláss hjá Tollvörugeymslunni frá upphafi en hann náði um 80% af dekkjamarkaði undir sig á skömmum tíma þar sem hann átti alltaf allar dekkjagerðir til á lager. Strangar reglur voru um hvað mátti geyma í Tollvörugeymslunni en allar almennar vörur eins og til dæmis heimilistæki, hjólbarðar, ýmiss konar varahlutir, snyrtivörur og pappír mátti finna þar. Talsvert var af dýrum hlutum tengdum framleiðsluiðnaði eins og sjávarútvegi en það skipti miklu máli fyrir útgerðir að geta fengið varahluti fljótt og örugglega til að framleiðslan lægi ekki niðri yfir langan tíma með tilheyrandi rekstrartapi. 

Ör stækkun

Sumarið 1962 hófust framkvæmdir við byggingu Tollvörugeymslu við Héðinsgötu. Geymsluhúsið var hólfað niður og hólfin leigð fyrirtækjum. Notendum fjölgaði ört og þurfti að stækka geymslurnar reglulega vegna biðlista eftir geymslum. Starfsemi Tollvörugeymslunnar jókst stöðugt. Árið 1985 voru leigjendur um 350 talsins og 580 hluthafar áttu í Tollvörugeymslunni.   Tekjur Tollvörugeymslunnar voru fyrst og fremst leiga á húsrými undir ótollafgreiddan varning og síðan þjónustugjöld af ýmsum viðvikum fyrir viðskiptavini, svo sem tölvukeyrt birgðabókhald, tollskýrslugerð og gerð úttektarbeiðna.

Albert Guðmundsson og Tollvörugeymslan

Albert Guðmundsson, stjórnmálamaður, stórkaupmaður, þekktur atvinnumaður í knattspyrnu og fleira, var atkvæðamikill í íslensku viðskiptalífi . Hann var formaður stjórnar Tollvörugeymslunnar frá stofnun árið 1962 til ársins 1989.

Opnara hagkerfi

Haustið 1987 varð mikil breyting á íslenskum tollalögum og stóð þá hið rótgróna fyrirtæki Tollvörugeymslan hf. í „algerri tilvistarkreppu“ eins og forstjóri fyrirtækisins, Helgi K. Hjálmsson, komst að orði í viðtali við Morgunblaðið 1995. Í kjölfar tollabreytinga var starfseminni bylt enda forsendur fyrir tollvörugeymslu gjörbreyttar frá því að starfsemin hófst. Árið 1962 voru tollar allt að 400 prósent en eftir breytingar 1987 fóru þeir að mestu niður í 0 til 11 prósent. Sumarið 1990 var markaðsátakinu „Settu allt í söluna, allt á sama stað“ hrint af stað. Áhersla var lögð á að veita innflytjendum alla þjónustu varðandi innflutning á einum stað. Tekið var upp samstarf við fyrirtæki og stofnanir sem þjónuðu innflytjendum, svo sem Landsbanka Íslands, tollendurskoðun, tollgæslu, Flugleiðir flugfrakt, Cargolux flugfrakt, Zimsen flutningsmiðlun og Vörudreifingarmiðstöð TVG svo dæmi séu nefnd. Á 30 ára afmæli Tollvörugeymslunnar var allri þjónustu sem innflytjendur þurftu á að halda komið á einn og sama stað. Í febrúar 1992 fluttu Flugfrakt Flugleiða og Tollstjóraembættið starfsemi sína á athafnasvæði Tollvörugeymslunnar og var þá hægt að fá fullnaðarafgreiðslu á innflutningi á einum og sama staðnum. Skapaðist með því mikill tímasparnaður fyrir innflytjendur. Sama ár hóf Skipaafgreiðsla Jes Zimsen mikið markaðsátak þar sem safnsendingar á milli Evrópu og Íslands voru kynntar. Fyrirtækið bauð þá upp á að safna vörum frá öllum helstu verslunarborgum Evrópu í Lúxemborg þar sem þeim var flogið beint til Íslands. 

Breytingar eftir 1980

Neyslumynstur Íslendinga tók miklum breytingum síðustu áratugi 20. aldar. Íslenskt hagkerfi opnaðist mikið með samningum um opnun markaðssvæða og inngöngu í Fríverslunarsamtök. Tollar voru smám saman felldir niður og samkeppni jókst. Smám saman dró ríkisvaldið úr afskiptum sínum af verslun og viðskiptum en sem dæmi var sala á bjór leyfð árið 1989.

GÁMAVÆÐING

Gjörbylting varð á sjóflutningum á alþjóðavísu þegar gámavæðing hófst eftir miðja síðustu öld. Íslensk flutningafyrirtæki tóku þó ekki þátt í þeirri þróun af krafti fyrr en í kringum 1980. Þá var öllum ljóst að gámaflutningar voru að taka yfir. Gámavæðingin hafði mikil áhrif á verslun og innflutning. Hægt var að flytja inn meira magn af vörum í einu og mun styttri tíma tók að afferma skipin og urðu því vörusendingar tíðari.

Hraðsendingar og tölvutækni

Skipaafgreiðsla Jes Zimsen bauð upp á telexsendingar og kom meðal annars á samstarfi við TNT Skypak en tíðni hraðsendinga jókst mjög með áætlunarflugi Flugleiða til Norðurlanda, Bretlands og Bandaríkjanna. Samkvæmt Gísla Sigurgeirssyni, framkvæmdastjóra Skipaafgreiðslunnar árið 1989, voru það helst bréf, skjöl og tollskyldir peningar sem fóru með hraðsendingum. Með internetinu og hagnýtingu tölvupóstforrita snarminnkaði þó þörfin á slíkum sendingum.Samskiptabylting með hagnýtingu tölvunnar og innkomu internetsins breytti miklu fyrir fyrirtæki sem sérhæfa sig í millilandaflutningum og skjalagerð. Öll vinna við birgðaskráningu, eftirlit og gerð tollskýrslna og úttektarbeiðna varð auðveldari, en áður voru allir reikningar handskrifaðir og tollagjöld reiknuð á handknúnar reiknivélar.Skipaafgreiðsla Jes Zimsen og Tollvörugeymslan voru vakandi í sinni vöruþróun og voru framarlega í því að innleiða nýja tækni eins og tölvur og síðar internetið í starfsemi sína.Árið 1993 gerði Skipaafgreiðsla Jes Zimsen mikilvægan samning við þýska flutningsmiðlunarfyrirtækið Kuhne & Nagel. Kuhne & Nagel var með um 130 skrifstofur í Evrópu auk fjölda skrifstofa í öðrum heimsálfum. Jes Zimsen gat nú farið að bjóða viðskiptavinum fyrirtækisins upp á safnsendingar í flugi frá Lúxemborg og nýta sér flutninganet Kuhne & Nagel til að koma vörunni á hagkvæman hátt til Lúxemborgar, þaðan sem flogið var með hana til Íslands. Sama ár gerði Skipaafgreiðsla Jes Zimsen samstarfssamning við United Parcel Service (UPS), eitt stærsta hraðflutningafyrirtæki í heimi. Samkvæmt samningnum sá Jes Zimsen um alla dreifingu fyrir UPS á skjölum og pökkum sem komu til Íslands sem hraðsendingar ásamt því að bjóða upp á útflutning á hraðsendingum. Almenna tollvörugeymslan hf. á Akureyri og Tollvörugeymslan hf. í Reykjavík voru sameinaðar árið 1995 og störfuðu upp frá því sameiginlega undir merki TVG. Forstöðumaður TVG á Akureyri á þessum tíma var Einar Hjartarson og yfir sameinuðu félagi var Gylfi Sigfússon.

TVG Zimsen

Fyrirtækið TVG-Zimsen varð til þegar Tollvörugeymslan hf. og Skipaafgreiðsla Jes Zimsen sameinuðust árið 1996. Árni Pétur Jónsson, er áður hafði verið framkvæmdastjóri Skipaafgreiðslu Jes Zimsen hf, tók við stjórnartaumunum við sameininguna og Helgi Hjálmsson lét af störfum sem framkvæmdastjóri Tollvörugeymslunnar. Með sameiningunni gat fyrirtækið boðið upp á heildar flutningalausnir fyrir viðskiptavini sína. Árið 1997 var tekið upp nýtt stjórnskipulag og starfsemi fyrirtækisins skipt í fjórar deildir eða svið, flutningssvið, geymslusvið, fjármálasvið og útibú á Akureyri.Árin 1996-2004 rak TVG-Zimsen umfangsmikla þjónustumiðstöð við Héðinsgötu í Reykjavík og þar voru skrifstofur fyrirtækisins, flutningamiðlunarþjónusta og vöruhótel. Jes Zimsen hafði flutt á Héðinsgötuna árið 1994 og hið nýja sameinaða félag TVG-Zimsen var þar til húsa í átta ár. Það var oft mikið líf og fjör á Héðinsgötunni á þessum tíma en þar voru einnig flugfrakt Flugleiða og Cargolux auk útibús Tollstjórans í Reykjavík og Landsbanka Íslands. Með sérhæfðri tollvörugeymslu og frísvæðisþjónustu á Héðinsgötunni gátu viðskiptavinir TVG-Zimsen leyst út sendingar og þurftu aðeins að greiða aðflutningsgjöld í samræmi við úttektir hverju sinni. Einnig gátu erlendir framleiðendur haft eigin lager hjá TVG-Zimsen og þjónað þannig viðskiptavinum sínum hér á landi.TVG-Zimsen kom að rekstri og uppbyggingu Vöruhótelsins en vöruhótelið var eitt af stærstu húsum landsins, alls 295 þúsund rúmmetrar, og gat stærðar sinnar vegna rúmað 5-6 Laugardalshallir. Tilkoma hússins varð til þess að fyrirtæki sem notfærðu sér þjónustu þess gátu nú stýrt birgðahaldi án tillits til eigin húsnæðis. Þau leigðu einfaldlega það pláss sem þau þurftu hverju sinni.Árið 2004 flutti TVG-Zimsen af Héðinsgötu yfir í nýtt húsnæði Vöruhótelsins. Á sama tíma var starfsemi geymslusviðs fyrirtækisins flutt til Vöruhótelsins.Hjörtur Hjartarson tók við stöðu framkvæmdastjóra TVG-Zimsen árið 1999 og um sumarið var stofnuð sérstök sjóflutningsdeild hjá TVG-Zimsen.Aldamótaárið 2000 var nokkuð viðburðarríkt hjá fyrirtækinu. Gengið var frá samstarfssamningi við hollenska flutningamiðlunarfyrirtækið Koninklijke Frans Maas Groep N.V. Samstarfið styrkti net flutningamiðlunar TVG-Zimsen, einkum í sjóflutningum, en áherslur félagsins höfðu til þessa frekar legið í hraðflutningum, flugfrakt og sérhæfðri geymslu- og dreifingarþjónustu. Ári síðar var gengið frá enn fleiri samningum við alþjóðleg flutningsmiðlunarfyrirtæki. Starfsemi TVG-Zimsen breyttist talsvert á þessum tíma og umfangið jókst umtalsvert með samningunum sem gerðu það að verkum að TVG-Zimsen gat tekið að sér stærri viðskiptavini.TVG-Zimsen flutti árið 2004 alla starfsemi sína frá Héðinsgötunni í nýtt húsnæði Vöruhótelsins við Sundahöfn. Skrifstofuaðstaða TVG-Zimsen var árið 2005 flutt í nýjar höfuðstöðvar að Korngörðum 2. Fyrirtækið einbeitti sér áfram að starfsemi flutningsmiðlunar, þ.e. sjófrakt, flugfrakt og skjalagerð.

Nýjar áherslur 2006

Nýr framkvæmdastjóri, Björn Einarsson, var ráðinn til starfa árið 2006 og hófst hann handa við að skilgreina og innleiða nýja stefnu fyrir TVG-Zimsen. Áhersla var lögð á að byggja upp fyrirtækið að alþjóðlegri fyrirmynd.Umsvif TVG-Zimsen jukust jafnt og þétt á næstu árum og fyrirtækið tryggði sér samninga við öflug flutningsmiðlunarfyrirtæki sem styrkti stöðu þess enn frekar í þjónustu og flutningum. Fyrirtækið gerði stóran samning við CMA-CGM, þriðja stærsta skipafélag heims, um að TVG-Zimsen nýtti öflugt þjónustu- og flutningsnet CMA-CGM m.a. við flutning heilgáma til og frá Asíu. Erlendum samstarfsaðilum fjölgaði og í dag á TVG-Zimsen í samstarfi við mörg af helstu alþjóðlegu flutningafyrirtækjunum sem búa til sterkan grunn af umboðsmannakerfi TVG-Zimsen.TVG-Zimsen keypti skipamiðlunina Gáru í Hafnarfirði árið 2013 og hefur náð sterkri fótfestu í að sinna erlendum skipum er koma til landsins og þjónustar þau með víðtækum hætti.TVG-Zimsen hefur átt í nánu samstarfi við Royal Arctic Line og í apríl 2016 tók TVG-Zimsen yfir stýringu á allri flugfrakt á milli Danmerkur og Grænlands frá Royal Arctic Line Logistics.TVG-Zimsen hefur styrkt mjög stöðu sína erlendis og rekur fyrirtækið umboðsskrifstofur í Árósum í Danmörku, Hamborg í Þýskalandi, Rotterdam og Amsterdam í Hollandi og í New York í Bandaríkjunum.Til viðbótar við hefðbundna flutningsmiðlun hefur áhersla verið lögð á að bjóða sérhæfða þjónustu á sérverkefnasviði. Meðal verkefna þar eru þjónusta við kvikmyndagerð á Íslandi, þjónusta við lyfjamarkaðinn og „crosstrade“ þjónusta við erlenda starfsemi íslenskra fyrirtækja.Á 20 ára afmælinu er TVG-Zimsen orðin leiðandi flutningsmiðlun á Íslandi með fjögur megináherslusvið: Sjó- og flugsvið, innanlandssvið, sérverkefnasvið og umboðsþjónustu. Velta fyrirtækisins á afmælisárinu er um þrír og hálfur milljarður og fjöldi starfsfólks að nálgast sjötta tuginn. Ræturnar eru djúpar og á þeim byggir TVG-Zimsen enn í dag þar sem framúrskarandi þjónusta og persónuleg nálgun er höfð að leiðarljósi. Við erum stolt af sögu fyrirtækisins og horfum björtum augum til framtíðar.

Samfélagsábyrgð og stuðningur við íþrótta- og menningarlíf

TVG-Zimsen hefur veitt fjölbreyttum verkefnum tengdum íþrótta- og menningarlífi ríkulegan stuðning síðastliðin ár, ýmist með fjárstuðningi eða aðstoð við flutninga. Meðal verkefna sem styrkt hafa verið eru Á allra vörum, Bleika slaufan og Blái naglinn. Fyrirtækið hefur einnig verið einn af aðalstyrktaraðilum Listahátíðar í Reykjavík undanfarin ár sem og fleiri listviðburða. TVG-Zimsen hefur hlotið viðurkenningu sem framúrskarandi fyrirtæki en viðurkenningin er veitt af Creditinfo sem hefur unnið að ítarlegri greiningu sem sýnir hvaða íslensku fyrirtæki fá bestu einkunn í styrk- og stöðugleikamati félagsins. Viðurkenningin var veitt í fyrsta skipti fyrir árið 2010 og hefur TVG-Zimsen uppfyllt skilyrði hennar í öll sex skiptin sem hún hefur verið veitt.

Gamlar atvinnuauglýsingar

Gaman er að rýna í gamlar atvinnuauglýsingar. Þær geta verið góður vitnisburður um annan tíðaranda. Í dag þykir til dæmis ekki boðlegt að óska eftir einu kyni fram yfir annað í starf og velta má fyrir sér hvort góð dönskukunnátta sé víða forsenda þess að fá skrifstofustarf.