TVG-Zimsen fagnar 20 ára afmæli

22.11.2016
TVG-Zimsen fagnar 20 ára afmæli - Mynd

TVG-Zimsen fagnaði 20 ára afmæli með boði á Bryggjunni brugghúsi sl. föstudag. Fjöldi gesta lagði leið sína vestur á Granda til að fagna þessum tímamótum.

„Þetta eru skemmtileg tímamót og þótt TVG-Zimsen sé að fagna 20 ára afmæli nú í ár þá á fyrirtækið rætur að rekja aftur til ársins 1894 er Jes Zimsen stórkaupmaður hóf rekstur umfangsmikils verslunarfyrirtækis í Reykjavík. Fyrirtækið varð til í núverandi mynd við samruna Tollvörugeymslunnar hf. og Skipaafgreiðslu Jes Zimsens árið 1996. TVG-Zimsen hefur vaxið mjög mikið undanfarin áratug, umfangið aukist verulega  og starfsemin er mun fjölbreyttari. Velta fyrirtækisins hefur rúmlega tífaldast á 10 árum. Fyrirtækið hefur starfsstöðvar í Danmörku, Hollandi, Þýskalandi og í Bandaríkjunum og er í samstarfi við mörg af stærstu flutningsmiðlunarfyrirtækjum heims. Við sjáum fram á tækifæri í rekstrinum og bjarta tíma“ segir Björn Einarsson, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen.

Fyrirtækið sinnir alhliða flutningsmiðlun auk þjónustu við meirihluta skemmtiferðaskipa, rannsóknarskipa, herskipa, snekkja og minni lúxusskipa sem koma til landsins. Fyrirtækið er einnig mjög stórt í þjónustu við kvikmyndaiðnaðinn sem og tónlistar- og auglýsingageirann. TVG-Zimsen hefur m.a. komið að flestöllum stærstu verkefnum erlendra kvikmyndafyrirtækja hér á landi.

Bent Marinósson tók meðfylgjandi ljósmynd af Birni Einarssyni og stjórn TVG-Zimsen.

Til baka í yfirlit